Aflýsa ferðum til og frá Miami vegna fellibyls
WOW air hefur aflýst tveimur flugferðum til og frá Miami í Bandaríkjunum vegna fellibylsins Irmu. Um er að ræða flug frá Keflavíkurflugvelli á föstudag og frá Miami á laugardag. Fylgst er með þróun mála og verða farþegar upplýstir jafn óðum með tölvupósti, sms-skilaboðum og á heimasíðu flugfélagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.
„Farþegum hefur verið gefinn kostur á að hætta við flug og fá fulla endurgreiðslu, breyta flugi sínu á aðrar dagsetningar eða velja flug frá öðrum brottfararstöðum WOW air á austurströnd Bandaríkjanna; Washington D.C., Boston eða New York.
Þá er þeim farþegum sem eiga flug heim frá Miami til Íslands í kvöld bent á að mæta sérstaklega snemma á flugvöllinn til þess að forðast örtröð og verður innritunarborðið opnað fyrr eða um kl. 12 að staðartíma.“
Þá eru farþegar Icelandair beðnir að fylgjast vel með tilkynningum á vef fyrirtækisins varðandi ferðir til og frá Bandaríkjunum.