Nýjast á Local Suðurnes

Snjallmælar sýna of mikla rafmagnsnotkun – Reynslan af mælunum góð í Reykjanesbæ

Ný Hollensk rannsókn hefur leitt í ljós að stafrænir notkunarmælar á rafmagni, svokallaðir snjallmælar, sýni umtalsvert meiri notkun en raunin er. HS Veitur hafa unnið að því undanfarin ár að skipta út hefðbundnum mælum fyrir snjallmæla í fyrirtækjum og á heimilum. Búið er að skipta út mælum í tveimur hverfum í Reykjanesbæ og fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins að reynslan af mælunum sé góð.

Umrædd rannsókn var unnin af University of Twente og Amsterdam University of Applied Sciences. Greint er frá niðurstöðunum á heimasíðum háskólanna og sýna þær að um verulega skekkju er að ræða í fimm af hverjum níu mælum sem athugaðir voru. Í flestum tilfellum var um skekkju að ræða þar sem mælarnir sýndu umtalsvert meiri notkun en raunin var. Mesti munurinn sem mældist þannig var 584% hærri en raunnotkun. Einnig voru dæmi um skekkjur í hina áttina, það er að segja að mælarnir sýndu minna en raunnotkun.

Þessa skekkju má, að mati vísindamannanna sem stóðu að rannsókninni, meðal annars rekja til aukinnar notkunnar á dimmerum og sparperum eða svokölluðum LED-perum, en meirihluti mælanna virtist ekki ráða við að mæla notkun þar sem dimmerar og sparperur komu við sögu – Þrátt fyrir að vera vottaðir af opinberum stofnunum. Í tilkynningu á vef háskólanna er ekki tekið fram hvaða tegundir af mælum voru prófaðar, en nánari upplýsingar um rannsóknina má nálgast hér.