Nýjast á Local Suðurnes

Aðlögunaráætlun samþykkt – “Reiknum með að lækka útsvar bæjarbúa til jafns við það sem gengur og gerist”

Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2017 – 2022 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi síðdegis í dag en samkvæmt henni mun lögbundið skuldaviðmið nást á þeim tíma, en slíkt er nauðsynlegt samkvæmt lögum. Unnið hefur verið að fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélagsins um árabil, en undir stjórn núverandi meirihluta frá árinu 2014. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafði krafið bæinn um aðlögunaráætlun til að uppfylla skilyrði laga um skuldaviðmið.

“Aðlögunaráætlun okkar gerir ráð fyrir að tekjur Reykjanesbæjar haldi áfram að vaxa með fjölgun íbúa, hærra atvinnustigi og auknum tekjum Reykjaneshafnar í kjölfar aukinnar skipaumferðar vegna uppbyggingar hafnsækninnar starfsemi í Helguvík. Við reiknum með að lækka útsvar bæjarbúa til jafns við það sem gengur og gerist á landinu, endurfjármögnum skuldir Reykjaneshafnar og gerum ráð fyrir að Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf. verði skipt í tvennt, en á móti kemur talsverð útgjaldaaukning vegna nýrra grunn- og leikskóla svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að áætlunin verði endurskoðuð eftir því sem forsendur breytast fram til ársins 2022 en hún og forsendur hennar hefur verið kynnt kröfuhöfum, Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og fleiri aðilum sem hagsmuna eiga að gæta.