Gróðursett til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur
Gróðursetti fyrst tré í Barnalundi í árið 1992
Reykjanesbær og Skógrækarfélag Suðurnesja munu taka þátt í hátíðardagskrá helgaðri Frú Vigdísi Finnbogadóttur með gróðursetningu í Paradís, neðan við Grænás, laugardaginn 27. júní. Þrjú tré verða gróðursett líkt og Vigdís gerði í forsetatíð sinni, eitt fyrir pilta, eitt fyrir stúlkur og eitt fyrir komandi kynslóðir. Dagskráin hefst kl. 11:00.
Helgina 27. og 28. júní verður haldið upp á þau tímamót að 35 ár eru síðan Vigdís Finnbogadóttir var kjörin foreti Íslands. Vigdís er jafnfram fyrsta konan í heiminum til að verða þjóðkjörin forseti. Óskað var eftir þátttöku skógræktarfélaga og niðurstaðan varð sú að félögin standi saman að gróðursetningu laugardaginn 27. júní í samvinnu við sveitarfélög. Skógræktarfélag Íslands fer fyrir gróðursetningunni með því að útvega allar trjáplötur en einnig kemur Samband íslenskra sveitarfélaga að framkvæmdinni og ýmis félagasamtök og fyrirtæki.
Vígdís gróðursetti fyrst tré í Barnalundi í árið 1992
Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Vigdís er verndari Landverndar.
Vígdís gróðursetti fyrst tré í Barnalundi í ágúst 1992 þegar þess var minnst að Njarðvík hafði verið sjálfstætt sveitarfélag í 50 ár. Það gerði hún með hjálp barna í leikskólanum Gimli. Það er því við hæfi að birta einnig nýlegar gróðursetningamyndir frá Gimlisbörnum í Barnalundi. Gimli og Njarðvíkurskóli tóku Barnalund í fóstur árið 2012. Í þessu sameiginlega verkefni er markmiðið að efla útikennslu og umhverfismennt og auka virðingu fyrir náttúrunni. Í því skyni gróðursetja nemendur og kennarar tré á hverju vori og halda svæðinu hreinu árið um kring, ásamt því að bjóða upp á fróðleik og skemmtilega samveru.
Gróðursetning til heiðurs Vigdísi í Paradís er þriðji staðurinn í Reykjanesbæ sem tengist landgræðsluátaki Vigdísar. Hún gróðursetti einnig við Rósaselstjarnir í forsetatíð sinni. Fyrir pilta gróðursetur Ágúst Fannar Ástþórsson 4 ára, fyrir stúlkur Ólöf Rós Davíðsdóttir 5 ára og fyrir komandi kynslóðir Sara Ross Bjarnadóttir sem ber barn undir belti.