Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjamær ein af „bestu flugfreyjum heims“

Flugliðar WOW-air

Suðurnesjamærin Elínborg Jensdóttir, er á lista breska blaðsins Independent yfir „bestu flugfreyjur heimsins“ ásamt stöllu sinni Anitu Brá Ingvadóttur, en þær starfa fyrir lággjaldaflugfélagið WOW-air.

Independent fékk fjölmörg flugfélög til þess að deila sögum af afbragðsþjónustu af hálfu flugliða í háloftunum og voru níu bestu sögurnar birtar á vef blaðsins í byrjun desember. Í umfjöllun blaðsins var sérstaklega tekið fram að flugliðar WOW-air séu þekktir fyrir vina- og skemmtilega þjónustu um borð í flugvélum félagsins.

Sagan sem WOW Air deildi með blaðinu segir frá flugfreyjunum Elínborgu og Anítu Brá sem komu eldri hjónum frá Bandaríkjunum, sem voru að missa af skemmtisiglingu sem þau voru á leiðinni í til aðstoðar. Hjónin flugu með WOW Air frá Keflavík til Amsterdam, þaðan sem skemmtisiglingin átti að hefjast. Seinkun varð á fluginu og höfðu hjónin áhyggjur af því að þau myndi missa af skipinu. Elínborg og Aníta Brá gripu til sinna ráða og hringdu í skipstjóra skemmtiferðaskipsins úr flugvélinni og spurðu hvort að mögulegt væri að bíða eftir hjónunum. Það var gert og komust hjónin í tæka tíð um borð og tóku þau fram í bréfi til flugfélagsins að skemmtisiglingin hefði verið yndisleg, auk þess sem þau hrósuðu stúlkunum fyrir þjónustuna.