Nýjast á Local Suðurnes

Stofna félag gegn einelti í minningu Dagbjarts Heiðars

Rúnar Sigurður Birgisson bóksali hefur ásamt tveimur öðrum stofnað félagið “Dagbjartur – félag gegn einelti”, en tilgangur félagsins er eins og nafnið gefur til kynna að vekja athygli á einelti. Nafn félagsins, “Dagbjartur – félag gegn einelti,” á sér rætur í máli Dagbjarts Heiðars Arnarssonar frá Sandgerði, sem svipti sig lífi, aðeins ellefu ára að aldri, í kjölfar eineltis sem hann varð fyrir.

Rúnar segir í samtali við DV.is að mál Dagbjarts hafi haft mikil áhrif á hann og hefur hann reynt að halda minningu Dagbjarts á lofti, meðal annars á Facebook-síðu sinni. Hann segir að mál annars ungs drengs í Fellaskóla, fyrir skemmstu hafi orðið til þess að hann, ásamt tveimur félögum, ákvað að stofna félagið. Stofnfundur fer fram þann 15. febrúar næstkomandi, en þá hefði Dagbjartur fagnað sextán ára afmæli sínu hefði hann lifað.

Stofnuð hefur verið Facebook-síða fyrir félagið og er síðan komin með tæplega 500 fylgjendur á aðeins örfáuum dögum. Á vef DV segist Rúnar ekki vita hversu lengi félagið muni starfa en segir það þó ljóst að félagið muni hafa sinn tilgang, hvort sem það starfar í eitt ár eða hundrað ár.

„Okkur svíður sárt hvað er í gangi. Einelti á sér stað í samfélaginu hjá fólki á öllum aldri, en þetta byrjar í skólunum þannig að það er mikilvægast að taka strax á því og reyna með öllum ráðum að ná þessu niður. Hugmyndin er að stofna félagið hægt og rólega, kynna málstaðinn og fá fólk með okkur,“ segir Rúnar

Dagbjartur Heiðar var búsettur í Sandgerði ásamt fjölskyldu sinni en hann varð fyrir hrottalegu einelti sem hafði mikil áhrif á hans líðan. Dagbjartur hafði greinst með ADHD og einhverfuröskun þegar hann var á leikskólaaldri og því fylgdu félagslegir erfiðleikar.

„Flestir fundir sem við fórum á voru fundir sem við báðum um sjálf. Honum leið ofboðslega illa í skólanum. Hann var með sérþarfir og vildi hafa hlutina alltaf eins. Það getur auðvitað verið erfitt að hafa það þannig. Það var reynt að einhverju leyti en það hefði mátt gera betur,“ sagði Kaja Emilsdóttir, móðir Dagbjarts í þættinum Einelti er ógeð sem sýndur var á RÚV í fyrra.