Nýjast á Local Suðurnes

HB Grandi styrkir Bláa herinn – Vill að sveitarfélög sameinist um sérstakan hreinsunardag

Fjölmenni fylgdist með því er hin nýja sorpflokkunarstöð HB Granda, Svanur – flokkunarstöð, var opnuð formlega á dögunum á athafnasvæði félagsins á Norðurgarði. Við sama tækifæri var gestum boðið að skoða nýbyggingu á Norðurgarði, sem hýsa mun nýtt verkstæði og umbúðageymslu HB Granda, og þiggja þar veitingar frá Norðanfiski ehf. sem er dótturfyrirtæki HB Granda á Akranesi.

Í lok opnunarhófsins í flokkunarstöðinni tók Tómas Knútsson, talsmaður Bláa hersins, við sérstakri viðurkenningu HB Granda, fjárstyrk að upphæð 1.000.000 króna sem ætlaður er til að styrkja starf samtakanna við hreinsun strandlengjunnar.

blai herinn sjalfboðalidar

Sjálfboðaliðar á vegum Bláa hersins hafa verið duglegir við að halda strandlengjunni hreinni

 

Tómas sagði að dagurinn í dag væri sannkallaður gleðidagur í sögu umhverfisverndarmála. Hann hefði sjálfur unnið sem sjálfboðaliði á þessum vettvangi í um 20 ára skeið og væri hvergi nærri hættur. Næsta verkefni væri að semja við sveitarfélög landsins um sérstakan hreinsunardag á rusli og þá sérstaklega plasti vítt og breitt um landið. Fyrir hvert kíló af plasti sem hreinsað væri úr umhverfinu myndi Skógrækt ríkisins leggja fram eina trjáplöntu sem sveitarfélögin gætu plantað. Með þessu væri hægt að sameina tvennt, hreinsun á rusli og bindingu gróðurhúsalofttegunda eins og koltvísýrings.

Augu stórfyrirtækja virðast vera að opnast varðandi þörfina á að hreinsa strandlengju landsins, en á dögunum tók Blái herinn við styrk frá Landsbankanum. Blái herinn er 20 ára í ár og hefur staðið að fjölmörgum hreinsunarverkefnum á þessum tíma. Nú er unnið að verkefnum á tíu strandsvæðum um allt land, svæði sem verða hreinsuð, ruslið skrásett og loks sett í endurvinnslu.