Nýjast á Local Suðurnes

Vox Felix styrkir Lítil hjörtu

Ungmennasönghópurinn Vox Felix mun gefa 500 kr. af andvirði hvers selds miða á tvenna jólatónleika hópsins, sem haldnir verða þann 13. og 14. desember næstkomandi í Keflavíkurkirkju, til samtakanna „Lítil hjörtu“.

Lítil hjörtu eru samtök með það að markmiði að gleðja börn í efnalitlum fjölskyldum á jólum og öðrum tyllidögum. Samtökin leiða saman krafta fyrirtækja, einstaklinga og hjálparsamtaka til þess að ekkert barn vakni upp við tóman skó á aðventunni eða fái engar gjafir á aðfangadagskvöld.

Uppselt er á fyrri tónleika sönghópsins vinsæla, en enn eru nokkrir miðar eftir á þá síðari.