Flugþjónustufyrirtæki vill stækka við sig – Breyta þarf aðal- og deiliskipulagi
Flugþjónustufyrirtækið Air Chefs ehf. hefur óskað eftir því við Reykjanesbæ að sveitarfélagið veiti fyrirtækinu stækkun á lóð sinni við Stapabraut 1. Um er að ræða stækkun til suðurs um tæplega helming, eða rúma 4.000 fermetra, úr 6.558 fermetrum í 10.735 fermetra. Fyrirtækið er í eigu Airport associates, Títan, fjarfestingarfélags Skúla Mogensen og fjárfestingafélags í eigu framkvæmdastjóra félagsins, Magnúsar Ólafssonar.
Air Chefs ehf. framleiðir máltíðir fyrir bæði farþega og flugáhafnir WOW air og annarra flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi, auk þess að framleiða máltíðir fyrir mötuneyti starfsmanna Airport Associates á Keflavíkurflugvelli.
Láti fyrirtækið verða af stækkun lóðarinnar þarf að skila inn drögum að aðal- og deiliskipulagsbreytingum til Reykjanesbæjar, sem svo þurfa að fara í ferli.