Nýjast á Local Suðurnes

Bandaríkjaher snýr aftur – Gömul flugskýli verða færð í stand

Bandaríkjaher ætlar að snúa aftur og hafa tímabundna aðstöðu á Íslandi, samkvæmt fréttatilkynningu frá hernum. Markmiðið sé að fylgjast með rússneskum kafbátum. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Vefrit hersins, Stars and Stripes, greinir frá því að bandaríski herinn ætli að snúa aftur til Íslands. Til að byrja með verði herinn aðeins með tímabundna aðstöðu hér, en sjóherinn gæti síðar meir farið fram á aðstöðu til langframa.

Þá kemur fram í frétt RÚV að herinn hafi þegar farið fram á fjármagn á næstu fjárlögum Bandaríkjanna til að færa í stand gömul flugskýli hersins á Keflavíkurflugvelli, sem munu hýsa P-átta Poseidon vélar hersins. Heimildir Local Suðurnes herma að á meðal þeirra bygginga sem Bandaríkjamenn hafi hug að nýta sé hið svokallaða “stóra flugskýli” eða flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli.

Í yfirlýsingu sem sendiráð Bandaríkjanna sendi frá sér í kvöld kemur fram að bandarísk og íslensk stjórnvöld hafi átt í stöðugum viðræðum um flugstöðina í Keflavík.

„Bandaríkjamenn og Íslendingar eru nánir bandamenn innan NATO og eru stöðugt að endurmeta ástand öryggismála í Evrópu og um heim allan. Það mat er byggt á síbreytilegum aðstæðum. Stöðugar viðræður eiga sér að sjálfsögðu stað á milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda um flugstöðina í Keflavík.“  Segir í yfirlýsingunni.