Nýjast á Local Suðurnes

Engar athugasemdir borist lögreglu vegna meints harðræðis við handtöku Óla Gott

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir mál Ólafs Gottskálkssonar, fyrrverandi landsliðsmarkvarðar í knattspyrnu vera í rannsókn og alla þætti þess eigi eftir að skoða. Markvörðurinn fyrrverandi skýrði frá því í Bítinu á Bylgjunni þann 3. ágúst að hann hefði verið handtekinn seint í júlí eftir að hafa flúið undan lögreglu.

Vefmiðillinn Stundin greindi frá því á mánudag að Ólafur hefði verið fluttur í skyndi á bráðamóttöku Landspítalans vegna innvortis blæðinga í kjölfar handtöku hans í vikunni á undan. Hann hefði greinst með brotið rifbein og innvortis blæðingu í kringum nýrun.

Engar athugasemdir hafa borist inn á borð lögreglunnar vegna handtökunnar, að sögn Ólafs Helga. „Eins og venjulega er aldrei beitt frekari aðgerðum en nauðsynlegar eru,“ segir lögreglustjórinn í samtali við Vísi.is.

Í umfjöllun Vísis kemur einnig fram að markvörðurinn fyrrverandi hafi ekki minnst á harðræði lögreglu í viðtalinu í Bítinu en Stundin greinir frá því að þeir sem standi Ólafi næst telji lögreglumenn hafa beitt óþarfa harðræði við handtökuna. Bæði hafi þeir beitt kylfum þegar þeir handtóku hann, mótþróalaust að því er segir í umfjöllun Stundarinnar, og sömuleiðis notast við kylfur eftir að Ólafur var kominn í handjárn.