Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík og Grindavík úr leik í Powerade-bikarkeppninni

Keflavík og Grindavík töpuðu leikjum sínum í undanúrslitum Powerade-bikarkeppninnar í körfuknattleik í kvöld, Keflvíkingar töpuðu gegn Þór í Þorlákshöfn með 100 stigum gegn 79 og Grindvíkingar töpuðu gegn KR-ingum á heimavelli með ellefu stiga mun, 70-81.

Leikur Þórsara og Keflvíkinga var jafn fyrstu þrjá leikhlutana og var staðan í leikhléi 48-46, heimamönnum í vil, Keflvíkingar leiddu að loknum þriðja leikhluta 67-65. Keflvíkingar lentu svo í vandræðum í lokaleikhlutanum þar sem þeir skoruðu einungis 12 stig á meðan allt gekk upp hjá Þórsurum sem höfðu á endanum 21 stigs sigur 100-79.

Magnús Már Traustason átti fínan leik fyrir Keflavík, sérstaklega í fyrri hálfleik en hann skoraði 22 stig, Valur Orri Valsson skoraði 18 og Guðmundur Jónsson 14.

Það var jafnt á flestum tölum í leik Grindavíkur og KR, Grindvíkingar voru fimm stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta, 17-12. KR-ingar náðu að minnka munin niður í tvö stig fyrir leikhlé, 38-36. Leikurinn hélst svo jafn og spennandi þar til í upphafi lokaleikhlutans þegar KR-ingar náðu 10 stiga forystu sem þeir létu ekki af hendi, lokatölur í Grindavík 70-81.

Jón Axel Guðmunds­son var bestur Grindvíkinga í kvöld, hann skoraði 25 stig og tík ​12 frá­köst, Þor­leif­ur Ólafs­son skoraði 17 stig og Char­les Wayne Garcia Jr. skoraði 13 stig og tók ​11 frá­köst.