Nýjast á Local Suðurnes

Sótti soninn til Slóvakíu – “Þarf að tryggja að þetta gerist ekki aftur,” segir Ragnar

Ragnar Hafsteinsson, sem undanfarið hefur staðið í ströngu við að endurheimta son sinn, Adam, frá móður hans í Slóvakíu, sótti drenginn þangað til lands á dögunum. Ragnar er með fullt forræði fyrir drengnum, eftir að hafa unnið dómsmál þess efnis hér á landi, en telur að nú taki við löng og ströng forræðisdeila, þar sem móðirin fékk forræði yfir drengnum í Slóvakíu.

„Daginn áður en hann átti að koma fékk ég skilaboð um að hann væri veikur og myndi ekki koma til baka. Strax í kjölfarið var lokað á öll samskipti við mig,” sagði Ragnar í Bítinu í morgun. Hann sagðist strax hafa áttað sig á hversu alvarlegt málið væru og hafði því samband við lögregluyfirvöld og innan- og utanríkisráðuneyti hérlendis og í Noregi.

„Ég komst að því í gegnum sameiginlega vini að það væri búið að melda hann inn í slóvakískan skóla. Svo fékk ég nýjar upplýsingar að hún [móðirin] hefði á einhvern ótrúlegan hátt fengið forræði fyrir drenginn þar í landi. Enginn hafði fyrir því að láta mig vita.”

ragnar og adam

Ragnar leitaði að sögn aðstoðar erlendra sérfræðinga í kjölfarið. Þannig hafi hann sótt barnið, án dóms og laga.

„Þegar gluggi opnaðist var strákurinn tekinn. Þetta er aðgerð sem tekur innan við mínútu og ég var á staðnum, þannig að það er ekki eins og einhverjir ókunnugir komi og taki hann. Hann fríkaði út, en ég samt á staðnum. Stærsti hlutinn af þessari aðgerð er að gera þetta án skaða fyrir barnið,” sagði Ragnar í viðtalinu við Bítið í morgun.

Þeir feðgar eru nú komnir til síns heima og Ragnar segir drenginn hafa það gott. Þó séu erfiðir tímar framundan.

„Nú þarf ég að tryggja að þetta gerist aldrei aftur. Það er í rauninni stærsta baráttan.”