Nýjast á Local Suðurnes

Breytt fyrirkomulag við sölu eigna Kadeco – “Hefur reynst vel og má búast við því að það verði notað áfram”

Breytt fyrirkomulag var tekið upp við sölu eigna, sem enn eru í umsjá Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, á stjórnarfundi félagsins sem haldinn var í október síðastliðnum þegar tilboð í fasteign voru opnuð að bjóðendum viðstöddum.

Sex tilboð bárust í eignina og voru þau opnuð að fjórum tilboðsgjöfum viðstöddum. Hæsta tilboði í eignina, Aðaltröð 4, var tekið og framkvæmdastjóra falið að ganga frá kaupsamningi.

Í svari við fyrirspurn Suðurnes.net um hvort þetta fyrirkomulag við sölu eigna Kadeco væri komið til að vera sagði Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að fáar eignir væru eftir í umsýslu Kadeco og að þetta fyrirkomulag hafi verið tekið upp af þeim sökum.

“Í ljósi þess að við erum með fáar eignir eftir í okkar umsýslu höfum við einbeitt okkur að því að selja eina fasteign í einu. Af þeim sökum var þetta fyrirkomulag tekið upp en í því felst að við auglýsum viðkomandi fasteign og óskum tilboða í hana. Tilboð eiga að berast í lokuðu umslagi fyrir ákveðinn tíma og eru umslögin opnuð í viðurvist bjóðenda, hafi þeir áhuga á því.” Sagði Marta.

Marta sagði fyrirkomulagið hafa reynst vel, en útilokar ekki að öðrum aðferðum verði beitt í framtíðinni komi þær aðstæður upp.

“Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og má búast við því að það verði notað áfram við sölu fasteigna hjá félaginu. Það mun þó ekki koma í veg fyrir að öðrum aðferðum verði beitt í framtíðinni ef aðstæður leiða til þess – og ef stjórn félagsins telur aðra aðferð farsælli eða hentugri í einstaka tilfellum.” Sagði Marta.