Nýjast á Local Suðurnes

Lýsti yfir vanþóknun á ákvörðun sem kostar bæjarsjóð vel á annan tug milljóna

Bæjarstjórn Grindavíkur gekk á dögunum frá ráðningu á nýjum bæjarstjar, Fannari Jónassyni og samþykkti um leið viðauka á fjárhagsárið 2016 vegna starfsloka fráfarandi bæjarstjóra að fjárhæð 13.509.000 krónur, en þar af er kostnaður vegna launa 12.079.000 krónur og kostnaður við aðkeypta þjónustu 1.430.000 krónur.

Páll Jóhann Pálsson sat hjá við atkvæðagreiðslu um ráðningu bæjarstjóra, en hann hefur verið ósáttur við ráðningarferlið og starfslok fráfarandi bæjarstjóra, sérstaklega í ljósi þess hve stutt er eftir af kjörtímabilinu.

Ég undirritaður hef áður lýst yfir vanþóknun minni á þeirri ákvörðun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Grindavíkurlista án nokkurs samráðs við aðra bæjarfulltrúa að skipta um bæjarstjóra þegar svo stutt er eftir af kjörtímabilinu, ákvörðun sem kostar bæjarsjóð vel á annan tug miljóna.

Að hafa samráð þegar bæjarstjóri er ráðinn en ekki rekinn er ekki vinnubrögð sem ég get sætt mig við og mun því sitja hjá við þessa afgreiðslu þó ég hafi ekkert út á þennan einstakling að setja sem verið er að ráða. Sagði í bókun Páls Jóhanns á fundinum.

Þá sátu fulltrúar Framsóknarflokks, þau Páll Jóhann og  Ásrún Kristinsdóttir hjá við afgreiðslu á viðauka vegna starfslokasamningsins, en það gerði einnig fulltrúi Samfylkingar, Marta Sigurðardóttir.

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokks harma enn og aftur að til þessa mikla kostnaðar hafi verið stofnað af hálfu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Grindavíkurlistans algerlega af ástæðulausu að okkar mati.
Það er í höndum þeirra sem stofnuðu til þessa kostnaðar að samþykkja viðaukann en við munum sitja hjá við afgreiðslu málsins. Segir í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins vegna þess máls.

Fulltrúar meirihlutaflokkana í Grindavík stigu nokkrum sinnum í pontu til þess að útskýra kostnaðinn við uppsögnina og í máli þeirra kom fram að bróðurpartur þessa kostnaðar hefði komið til þó starfslokin væru eðlileg – í formi biðlauna.

Viðaukinn var samþykktur með fjórum atkvæðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Grindavíkurlista, en fulltrúar Framsóknar og Samfylkingar sátu hjá eins og áður segir.