Nýjast á Local Suðurnes

Björgunarsveitirnar selja Neyðarkallinn um helgina

Sala á Neyðarkalli björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar stendur yfir fram á laugardagskvöld. Fyrstu Neyðarkallana seldu þau Sóley Eiríksdóttir, sem var 11 ára þegar snjóflóðið féll á Flateyri og var bjargað úr því eftir níu tíma, og Jón Svanberg Hjartarson, sem var lögreglumaður á staðnum og stýrði aðgerðum fyrstu klukkkustundirnar eftir að flóðið féll.

Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna munu selja Neyðarkall um allt land; finna má þá í verslunarmiðstöðvum, við verslanir, vínbúðir og víðar þar sem fólk er á ferðinni. Víða verður einnig gengið í hús en það á helst við í minni bæjarfélögum á landsbyggðinni.

Neyðarkallinn í ár er björgunarsveitamaður í bílaflokki. Björgunarsveitarmenn í bílaflokki sjá til þess að ökutæki sveitanna séu alltaf í fullkomnu lagi og tilbúin til notkunar þegar útkall berst. Auk þess sjá meðlimir bílaflokks gjarnan um akstur þeirra til og frá vettvangi og á æfingum.