Nýjast á Local Suðurnes

Sjálfboðaliðar tóku til hendinni í Reykjanesbæ

Reykjanesbæ barst liðsauki í hin ýmsu umhverfisverkefni frá sjálboðaliðum frá sjálfboðaliðssamtökunum Seeds í nýliðnum ágústmánuði. Verkefnin voru bæði á vegum Reykjanesbæjar og Kadeco.

Um var að ræða tvo mismunandi hópa sem komu í tvær vikur hvor en sjálfboðaliðarnir komu frá mörgum ólíkum löndum til að kynnast Íslandi í gegnum sjálfboðastarfið. Seeds samtökin starfrækja vinnubúðir víða um land í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök og sveitarfélög.

Að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur garðyrkjufræðings hjá Reykjanesbæ fóru hóparnir meðal annars í ruslahreinsun á Vatnsnesinu og gengu þar vasklega til verks með bros á vör.  Einnig fóru þau í hreinsun á opnum svæðum, Pattersson, Ásbrú og í heilmikla grisjun í Sólbrekkuskógi í samstarfi við flokkstjóra vinnuskólans.