Nýjast á Local Suðurnes

Þekktar leikkonur bjóða upp á námskeið fyrir börn og unglinga í sumar

Í sumar munu leikkonurnar Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Gunnella Hólmarsdóttir vera með leiklistarnámskeiðin „Leiktu með“ fyrir börn og unglinga í Reykjanesbæ og nágrenni.

Leiktu með er leiklistarnámskeið þar sem þáttakendur fá að kynnast sinni sköpunargleði í formi spuna og leiklistar. Með ýmsum leikjum og æfingum fá þau að kynnast því hvernig framkomu leikari þarf að hafa og verður því sérstaklega farið í, hlustun, viðbrögð, einbeitingu og samvinnu. Í lok námskeiðsins er haldin sýning opin öllum. Markmið námskeiðanna er að efla sjálfsmynd og sjálfstraust þáttakenda og auðvitað að upplifa leikgleði.

Júlíana Sara er leikkona að mennt frá London og útskrifast vorið 2013. Hún hefur tekið að sér fjöldan allan af verkefnum eftir útskrift en má þar helst nefna gamanþættina Þær Tvær, þar sem hún er bæði handritshöfundur og leikari í þeim þáttum. Hún hefur ferðast víða um landið með leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga og leikstýrt uppfærslum á grunnskóla og framhaldsskólastigum.

Gunnella Hólmarsdóttir útskrifaðist með BA í leiklist árið 2011 frá Kaupmannahöfn. Þar lék hún bæði á sviði sem og fyrir framan myndavélar. Hún hefur unnið með börnum og unglingum í fjölda ára. Meðal margra annara verkefna hefur hún kennt hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu, unnið að talsettningum og leikstjórn. Suðurnesjamenn ættu að kannast við hana þar sem hún leikstýrði bæði Dirty dancing og Moulin Rouge í uppsetningu NFS í Andrews theater.

Skráning á námskeiðin er þegar hafin og fer vel af stað. Þær leikkonur segjast vera mjög spenntar að hefja námskeiðin og vilja benda áhugasömum á að nánari upplýsingar eru á Facebook-síðu Leiktu með.