Nýjast á Local Suðurnes

Tímabært að Reykjanesbær stofni afrekssjóð fyrir ungt íþróttafólk

Mynd: Skjáskot/RÚV

Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, Margrét Þórarinsdóttir, telur að það sé orðið tímabært að Reykjanesbær stofni afrekssjóð fyrir ungmenni sem skara fram úr í íþróttum. Tillaga Miðflokksins gengur út á að gera ungum íþróttamönnum sem taka þátt í landsliðsverkefnum kleift að taka þátt óháð stétt eða stöðu foreldra.

Margrét segir í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar að tækifæri þessara afreksungmenna til vinnu á sumrin séu af skornum skammti þar sem þau þurfa að stunda landsliðsæfingar af kappi. Þá tekur Margrét dæmi einstakling sem um valinn vat í U-18 landsliðið í körfuknattleik í sumar, fyrst á EM og svo á Norðurlandamótinu. Kostnaður viðkomandi við fyrri ferðina var 253.700 kr. og við seinni ferðina var kostnaðurinn 285.000 kr. eða 538.700 krónur í heildina. Hún segir viðkomandi hafa fengið samtals 50.000 krónur í styrki frá sveitarfélaginu og viðkomandi íþróttafélagi, eða tæplega 10% af kostnaði við verkefnið.

Bókun Margrétar í heild sinni:

„Íþrótta- og tómstundaráð virðist misskilja tillögu bæjarfulltrúa Miðflokksins en í henni er lagt til að sérstakur afrekssjóður fyrir ungmenni sem skara fram úr í íþróttum, verði stofnaður. Í svari íþrótta- og tómstundaráðs er talað um Íþróttasjóð Reykjanesbæjar en þar er um allt annan sjóð að ræða. Eins og fram kemur í svarinu þá hlutu 83 aðilar úthlutun úr sjóðnum á síðasta ári, var um landsliðsfólk að ræða? Ég spyr.

Sá sjóður sem Miðflokkurinn vill stofna, snýr að því íþróttafólki hér í bæ, sem skarar fram úr og er valið til að koma fram fyrir hönd Íslands. Reykjanesbær er framúrskarandi íþróttabær og yfir því eigum við að vera stolt. Fjöldi ungmenna sem myndu hljóta styrk á hverju ári er auðvitað breytilegur en tillagan fjallar um að venjulegu fjölskyldufólki muni verulega um þá upphæð sem hægt er að sækja um þegar börn þeirra eru valin til landsliðsverkefna. Þetta eiga börnin að geta gert óháð stétt eða stöðu foreldra og því þarf svona afrekssjóður að vera til staðar.

Svo dæmi sé tekið þá var einstaklingur hér í bæ valinn til að leika með U-18 landsliðinu í körfuknattleik í sumar, fyrst á EM og svo á Norðurlandamótinu. Kostnaður viðkomandi við fyrri ferðina var 253.700 kr. og við seinni ferðina var kostnaðurinn 285.000 kr. Samtals gerir þetta 538.700 kr. Það sem viðkomandi fékk í styrk úr fyrrnefndum íþróttasjóði var 2 x 20.000 kr. og 10.000 kr. kom frá unglingaráði Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, samtals 50.000 kr. Sjá má á þessu dæmi að talsvert vantar upp á að það gangi upp og er ekki sanngjarnt að leggja þær byrðar á venjulega fjölskyldu. Tekið skal fram að umræddur einstaklingur var að keppa í körfuknattleik á vegum Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) en sambandið greiðir um 30-35% af ferðakostnaði. Skv. mínum heimildum þá greiðir KKÍ næstmest allra sérsambanda en Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) greiðir allan kostnað og því ætti Afrekssjóðurinn ekki að þurfa koma til móts við knattspyrnufólk.

Tækifæri þessara afreksungmenna til vinnu á sumrin eru af skornum skammti, þar sem þau þurfa að stunda landsliðsæfingar af kappi. Reykjanesbær býður þeim að stunda unglingavinnuna sem að mestu snýr að garðyrkju og geta þau fengið frí frá vinnu á launum til að stunda æfingar. Þar sem álag við æfingar og keppni er mikið þá eru ekki margir atvinnurekendur sem vilja ráða börnin í vinnu og því er búinn að myndast ansi stór vítahringur. Hvernig er best að taka á vandamálinu? Miðflokkurinn telur að það sé orðið tímabært að Reykjanesbær stofni afrekssjóð sem hjálpar börnunum okkar að ná árangri og koma fram fyrir hönd Íslands og vera þannig flottir fulltrúar Reykjanesbæjar. Íþróttir hafa löngum verið besta auglýsingin sem bærinn fær og verðum við að aðstoða fjölskyldur sem eiga börn sem skara fram úr. Að öðrum kosti þurfa mörg ungmenni að gefa landsliðsverkefni frá sér þar sem fjölskyldan einfaldlega ræður ekki við kostnaðinn. Það viljum við ekki láta gerast“.