Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi – Vilja að Suðurnes njóti sanngirni og stuðnings

Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað um 26% á undanförnum þremur árum, á meðan fjölgun íbúa á landinu öllu er um 4%. Samhliða fordæmalausri íbúafjölgun í Reykjanesbæ hafa fjárframlög ríkisins til svæðisins ekki verið aukin í takt við hana með þeim afleiðingum að fjárframlög á hvern íbúa hafa dregist verulega saman. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bókun allra fulltrúa í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Bókun bæjarstjórnar í heild sinni:

Reykjanesbær stendur frammi fyrir miklum áskorunum við að tryggja þjónustu við ört fjölgandi íbúa á sama tíma og sveitarfélagið vinnur eftir samþykktri aðlögunaráætlun. Íbúafjölgun í Reykjanesbæ hefur verið langt umfram fjölgun íbúa á landinu öllu. Frá árinu 2014 hefur íbúum bæjarins fjölgað um 26% en fjölgun íbúa á landinu öllu er um 4%. Samhliða fordæmalausri íbúafjölgun í Reykjanesbæ hafa fjárframlög ríkisins til svæðisins ekki verið aukin í takt við hana með þeim afleiðingum að fjárframlög á hvern íbúa hafa dregist verulega saman. Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki verið tekið eðlilegt tillit til þess hversu langt yfir meðaltal fjölgunin á svæðinu er og því stendur svæðið langt að baki öðrum svæðum þegar kemur að fjárframlögum til opinberrar þjónustu.

Fjárframlög mun lægri til Suðurnesja en til annarra landshluta

Á undanförnum árum hafa fjárframlög ríkisins til opinberra stofnanna verið mun lægri en á öðrum landssvæðum, sérstaklega þegar horft er til framlaga á hvern íbúa. Þetta var enn á ný staðfest í úttekt sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar lét vinna fyrir sig á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 sem lagt var fram í september. Skoðun á fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar bendir ekki til þess að miklar breytingar hafi verið gerðar á fjárframlögum til þeirra mála sem tengjast Suðurnesjum.

Miklum umsvifum fylgir mikil ábyrgð

Fjölgun íbúa og minna atvinnuleysi vegna mikilla umsvifa á svæðinu skilar meiri tekjum til svæðisins en kallar líka á auknar fjárveitingar sveitarfélagsins svo hægt sé að takast á við þennan mikla uppgang og fordæmalausu fjölgun af ábyrgð. Nefna má að vöxtur í flugsamgöngum kallar á aukna þörf á landamæravörslu og löggæslu. Fjölgun íbúa og ferðamanna hefur einnig í för með sér aukið álag á heilsugæsluna á svæðinu,  kallar á mikla uppbyggingu í samgöngum, fjölgun grunnskólanemenda hefur í för með sér aukið álag á skólakerfið og svo mætti áfram telja. Á sama tíma og sveitarfélagið hefur staðið frammi fyrir þessum miklu áskorunum hafa framlög ríkisins samt almennt verið lægri en til sambærilegra verkefna í öðrum landshlutum. Ljóst er að hið opinbera verður að styðja við þennan uppgang ef ekki á að stefna í óefni.

Áskorun um aukin framlög

Á undanförnum mánuðum hafa fulltrúar sveitastjórnanna og opinberra stofnanna á Suðurnesjum leitað skýringa á þessu í Stjórnarráðinu og verið tekið ágætlega. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að auka fjárframlög til opinberra stofnanna á Suðurnesjum þannig að íbúar á svæðinu njóti sömu fjárframlaga og íbúar í öðrum landshlutum.