FöstudagsÁrni er þakklátur Illuga Jökulssyni

Lennti óneitanlega í furðulegum aðstæðum þegar ég hoppaði ásamt móður minni inn á ónefnda skrifstofu í Keflavík fyrr í vikunni. Ég og mamma áttum þar samtal við fallega stúlku úr Garðinum á mínum aldri, nema hvað að allt í einu opnast eitt skrifstofurýmið. Þar birtist ein frábær manneskja sem veður að okkur og segist þurfa að ræða við mig. Hún tjáir mér það að hún hafi eignast litla ömmustelpu sl. ágúst. Ég kastaði auðvitað á hana hamingjuóskum en þar var ekki öll sagan sögð. Þegar hún sá litlu dúlluna í fyrsta skiptið rak hún upp stór augu – barnið er alveg eins og Árni Árna. Já hún stóð föst á því og fór að leita í símanum sínum að mynd máli sínu til sönnunnar. Mamma flissaði á meðan, en þegar hún sá myndina gapti hún og sagð barnið nauðalíkt mér. Þarna stóð ég eins og kálfur grunaður um faðerni barnsins með mömmu sem var nýbúin að segja mér hvað lítil börn eru yndisleg og mamma var bara orðin hálfspennt yfir þessu. Ég fór fram á góða þjónustu hjá þessu fyrirtæki í skiptum fyrir játningu á faðerninu. Þegar við mamma voum á leið út í bíl sagði hún „spáðu í því ef þetta hefði gerst í einhverju ölæði“ – þetta bjargaði deginum hjá henni.
Loksins er komin ný ríkisstjórn og ég veit það að ég þarf nú ekki að greina frá gleði minni með hana. Þetta verður eitthvað. Ég á von á að lífskjör haldi áfram að batna og glaður að skattþrep nr.2 sem féll niður um áramót verður ekki endurvakið. Það eitt og sér skilar strax krónum í vasa þjóðarinnar. Skattheimta er þyrnir í augum mínum, við eigum að finna jafnvægi hvað það varðar, það er jafnréttismál – ekki að rífa meira af tekjuhærri til að færa tekjuminni. Hrói höttur goðsögn bókmenntana á bara heima þar og á leiksviðum, ekki í skattkerfi lýðræðisríkja.
Ég er ekki sáttur að Bjarni okkar Ben sé bara í áttunda sæti yfir kynþokkafyllstu þjóðarleiðtoga í heiminum Vefsíðan hottest head of state þyrfti að senda fulltrúa á fund Bjarna og ég er sannfærður um að hann Bjarni okkar myndi hækka talsvert við það. Hann er nefnilega miklu huggulegri í eigin persónu. Án þess að ég viti nokkuð um það þá held ég að þetta sé í fyrsta skiptið sem þjóðarleiðtogi frá Íslandi komist á þennan lista. Skyldi nokkurn undra ef maður hugsar til Sigmundar Davíðs og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þau teljast seint til fegurðar þessar elskur.
En talandi um fegurð, Kendúkku-gaurinn Rodrigo Alvers hefur farið í 48 lýtaaðgerðir til að breyta sér í Kendúkku. Nýjasta aðgerðin hans var nokkuð sniðug. Hann lét bara soga alla aukafitu og dæla henni í rassinn. Núna er hann með flottann rass (þeir sem vilja sjá djásnið farið á dv.is.) Ég er að spá í að sleppa megruninni og láta bara dæla vömbinni aftur á bossa. Einfalt og tekur brot úr degi í stað þess að hamast í ræktinni eins og kanína í marga mánuði.
Ég er að leita að huggulegum manni sem ég ætla að senda SMS „vaknaður?“ – þetta einfalda orð getur verið upphafið að hjónabandi ef draga má lærdóm af pólitíkinni. Benni fjármálaráðherra sendi slík skilaboð á Óttar heilbrigðisráðherra morgunin eftir kosningarnar í haust og úr varð traust hjónaband Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Hveitibrauðsdagarnir fóru í stjórnarmyndunarviðræður sem tóku á sig happy ending fyrir þessar dúllur. Þeir sitja nú í ráðherrastólum, hjónabandið skilaði þeim alla leið. Ég er bara í vandræðum að ákveða hver fær SMS – ið frá mér. Það þarf að vanda valið, er einhver sem á tekjublaðið síðan í fyrra ?
Listamannalaunin eru ávallt jafn umdeild. Gréta Salome tónlistarkona fær að þessu sinni listamannalaun í sex mánuði. En hún þarf að fresta að þiggja þau vegna anna. Já það er svo brjálað að gera hjá henni að hún hefur hreinlega ekki tíma til að þiggja launin, eins og er allavega. Er það ekki frábært? Er Gréta ekki heiðarleg inn að beini? Hún er að vinna fyrir sér með list sinni og þarf ekki að vera á tvöföldum launum. Það mættu fleiri taka hana til fyrirmyndar, Þráinn Bertelsson, ef þú ert að lesa pistilinn minn þá átti þetta við þig þegar þú áttir sæti á Alþingi íslendinga en þáðir samt listamannalaun og gerir enn. Ég hef ekki heyrt frá þér (sem betur fer) síðan þú hættir á þingi, en gott að vita að þú átt fyrir saltinu í grautinn.
Að lokum vil ég koma á framfæri kæru þakklæti til Illuga Jökulssonar og félaga sem tóku að sér að mótmæla harðlega síðustu ríkisstjórn. Þeir vildu breytingar, vildu ríkisstjórnina frá, vildu kosningar. Þeir hljóta að sitja glaðbeittir með feita vindlinga og fagna. Þeir hafa verið bænheyrðir, fengu kosningar og nýja ríkisstjórn. Takk strákar, þið eruð frábærir.