Nýjast á Local Suðurnes

Erfiðlega gengur að finna framkvæmdastjóra yfir Kadeco

Erfiðlega virðist ganga að finna réttan aðila til þess að stjórna Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco, en starfið var auglýst í lok september. Fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, Marta Jónsdóttir, hætti störfum fljótlega eftir að starfið var auglýst laust til umsóknar.

Félagið hefur fengið nýtt hlutverk sem vettvangur samstarfs sveitarfélagana á svæðinu, Isavia og íslenska ríkisins við þróun svæðis í kringum flugvöllinn. Markmiðið með samstarfinu er að tryggja að til verði heilsteypt stefna og skipulag um uppbyggingu og þróun flugvallarsvæðisins og nærsvæða þess til framtíðar.

Hlutverk nýs framkvæmdastjóra verður meðal annars að móta og innleiða heildstæða stefnu um þróunarsvæðið, hafa umsjón með samskiptum við mismunandi hagaðila á svæðinu, leiða fram sjónarmið þeirra og vinna að samræmingu ólíkra sjónarmiða. Þá mun nýr framkvæmdastjóri hafa umsjón með greiningum, úttektum og markaðsmálum í tengslum við þróun svæðisins auk þess að stýra þróunar- og skipulagsvinnu á starfssvæði félagsins með tilliti til framtíðarsýnar svæðisins og stefnu félagsins.

Töluverðar kröfur eru gerðar til þess sem við starfinu tekur, en þar telur hæst reynsla af skipulags og þróunarverkefnum, framhaldsmenntun eða yfirgripsmikil reynsla af sambærilegum verkefnum og reynsla á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar.

Hvorki stjórnarformaður félagsins, Ísak Ernir Kristinson né fulltrúi Capacent sem sér um ráðningar fyrir þróunarfélagið svöruðu í trekupum fyrirspurnum vegna þessa, en á heimasíðu ráðningarfyrirtækisins kemur fram að viðtöl séu í gangi.