Nýjast á Local Suðurnes

Júníus Meyvant á leið í tónleikaferð um heiminn – Þjófstartar í Hljómahöll

Söngvarinn vinsæli Júníus Meyvant verður á trúnó í Hljómahöll þann 9. febrúar næstkomandi. Uppselt er á tónleika söngvarans klukkan 21, en ákveðið hefur verið að halda aukatónleika sama dag klukkan 18. Aðeins eru 100 miðar í boði og er hægt að nálgast þá hér.

Júníus Meyvant gaf út nýja breiðskífu þann 25. janúar síðastliðinn og af því tilefni er hann á leið í mikla tónleikaferð um heiminn sem hann ætlar að þjófstarta á Íslandinu góða. Júníus Meyvant hefur eytt mestum hluta þessa árs í hljóðveri að vinna að nýju plötunni, ‘Across the Borders’, og hefur hann því lítið spilað á tónleikum undanfarið en nú snýr hann aftur með ný lög og nýja og stærri hljómsveit með sér á sviðinu.

Tónleikaröðin Trúnó hefur slegið í gegn í Hljómahöll undanfarin misseri. Hugmyndin á bakvið tónleikaröðina er sú að halda stóra tónleika þar sem engu er til sparað en halda þá á minnsta sal Hljómahallar sem tekur aðeins 100 gesti í sæti.