Nýjast á Local Suðurnes

Búast við troðfullri Ljónagryfju – Njarðvíkingar þurfa sigur í kvöld

Annar leikur Njarðvíkinga og KR-inga í undanúrslitarimmu liðanna í Dominos-deildinni í körfuknattleik fer fram í kvöld. Leikið er á heimavelli Njarðvíkinga, Ljónagryfjunni og búast má við troðfullri gryfju og mikilli stemmningu.

Það má segja að tölfræðin sé með Njarðvíkum fyrir leikinn, að minsta kosti að hluta til, en þeir hafa unnið og tapað til skiptis í úrslitakeppni í undanförnum 19 leikjum. Tölfræðin gegn fyrnasterkum KR-ingum er hinsvegar ekki eins góð en Njarðvíkingar hafa tapað öllum leikjum sínum gegn Vesturbæingunum í vetur. Fyrsti leikur liðanna í úrslitakeppninni í vetur var einn sá furðulegasti í manna minnum, lítið skorað, tvær framlengingar og mikið um mistök á báða bóga, eða alla bóga, því dómaramistök urðu þess valdandi að Njarðvíkingar fengu ekki tækifæri til að jafna leikinn undir lok seinni framlengingar.

Liðin mættust einnig í undanúrslitum Dominos-deildarinnar á síðustu leiktíð og voru leikir liðanna jafnir og spennandi, fjórar framlengingar hefur þurft til að knýja fram sigur í síðustu tveimur leikjum liðanna í úrslitakeppni  og má búast við mikilli spennu og dramatík í kvöld ef fram heldur sem horfir.

Formaður Kkd. UMFN sér til þess að lykilmenn borði hollan og góðan mat fyrir mikilvæga leiki

Klárir í slaginn! – Formaður Kkd. UMFN bar nýveiddan þorsk á borð fyrir þá Hauk Helga og Odd Rúnar, enda þurfa lykilmenn hollan og góðan mat fyrir mikilvæga leiki

Fyrir Njarðvíkinga kemur ekkert annað en sigur til greina í kvöld því tapi liðið verður róðurinn þungur. Gunnar Örlygsson formaður Kkd. Njarðvíkur sagði í stuttu spjalli við Sudurnes.net, mikla og góða stemmningu vera hjá liðinu og að menn væru klárir í slaginn í kvöld, stjórnin væri að gera sitt með því að reyna að fá leyfi fyrir fleirri áhorfendum í gryfjuna, en óvíst væri hvort það hefðist, af öryggisástæðum. Hann vildi því hvetja fólk til að mæta í grænu og snemma til að tryggja sér örugglega miða á leikinn sem hefst klukkan 19.15. Miðasalan hefst klukkan 18.