Nýjast á Local Suðurnes

Reka stærstu rafmyntanámu heims á Fitjum – Sjáðu vinnsluna í beinni!

Fyrirtækið Genisis mining rekur stærstu Ethereum námu heims hér á landi og nýtir gagnaver Advania á Fitjum við starfsemina. Forstjóri fyrirtækisins segir að fyrirtækið kaupi raforku hér á landi fyrir um eina milljón evra á mánuði, eða jafnvirði 123 milljóna króna. Þá er fyrirtækið einnig leiðandi í Bitcoin-námuvinnslu og hefur um 700.000 viðskiptavini á sínum snærum.

Útgáfa rafmynta á borð við Bitcoin og Ether byggir á hinni svokölluðu kubbakeðjutækni (e. blockchain technology). Um er að ræða eins konar dreifða skrá þar sem hægt er að sannreyna að allar upplýsingar innan hennar séu sannar og réttar. Þeim sem útvega nauðsynlegan tækjabúnað, eða eins og í tilfelli Genesis mörg þúsundir skjákorta og annan tölvubúnað, með mikla reiknigetu til að leysa flóknar stærðfræðiformúlur, er launað með nýjum rafmyntum fyrir aðstoð við útgáfu nýrra skráa. Gjaldmiðlarnir eru því helsti drifkrafturinn í þróun tækninnar sem einn viðmælandi Markaðarins fullyrðir að muni gjörbreyta heiminum.

Fyrirtækið heldur úti beinum útsendingum frá vinnslunni sem fram fer í gagnaveri fyrirtækisins á Fitjum, en hér má nálgast tengil útsendinguna.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við forstjóra fyrirtækisins, en viðtalið er tekið í gagnaveri Advania á Fitjum og sýnir vinnsluna sem þar fer fram.