Nýjast á Local Suðurnes

Kostnaður Reykjanesbæjar vegna förgunar Storms verður á sjöundu milljón

Stormur SH 333 við Skipasmíðastöð Njarðvíkur rétt áður en hann var rifinn - Mynd: Emil Páll

Kostnaður Reykjanesbæjar vegna förgunar á trébátnum Stormi SH 333 sem lá á botni hafnarinnar í Njarðvík í nokkra mánuði, stendur í um 5 milljónum króna, en mun á endanum líklega verða á sjöundu milljón króna, að sögn Halldórs Karls Hermannssonar, hafnarstjóra. Báturinn var í eigu hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík þar til fyrir nokkru síðan að fyrirtækið seldi bátinn til aðila á Þingeyri fyrir eina krónu.

Gentle Giants hafði greitt hafnargjöld og kostnað vegna legu bátsins í Njarðvíkurhöfn undanfarin átta ár upp á um átta milljónir króna, en hafnaryfirvöld í Reykjanesbæ telja að fyrirtækið hafi selt bátinn til þess að sleppa við greiðslu á förgun bátsins.

Málið hefur verið töluvert í umræðunni eftir að blaðamaðurinn Atli Már Gylfason hvatti íbúa Suðurnesja til að sniðganga fyrirtækið og gefa því slæma umsögn og minnstu mögulegu stjörnugjöf á ferðavefjum og samfélagsmiðlum. Stjörnugjöf til fyrirtækisins hrundi í kjölfarið, meðal annars á Facebook og Trip Advisor.