Nýjast á Local Suðurnes

Hvetur Suðurnesjamenn til að sniðganga Gentle Giants – Fyrirtækið skoðar rétt sinn

Stormur SH 333 við Skipasmíðastöð Njarðvíkur rétt áður en hann var rifinn - Mynd: Emil Páll

Suðurnesjamenn eru hvattir til að sniðganga eitt stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins, Gentle Giants á Húsavík, og gefa því lágmarkseinkunn á samfélagsmiðlinum Facebook, eftir að mikill kostnaður vegna förgunar trébátsins Storms SH 333 lenti á Reykjaneshöfn. Áskorunin var sett fram í morgun af blaðamanninum Atla Má Gylfasyni í Facebook-hópnum Reykjanesbær – Betri bær. Báturinn hafði legið við bryggju í Njarðvík undanfarin níu ár, þar af undanfarna mánuði á botni hafnarinnar, eftir að hann sökk.

Greint var frá kostnaði Reykjaneshafnar vegna bátsins, og meintum klækjabrögðum fyrirtækisins við að losna við hann í prentútgáfu stærsta hérafréttamiðils landsins, Víkurfréttum. Þar er haft eftir hafnarstjóra Reykjaneshafnar að mikill kostnaður við förgun bátsins hafi lent á Reykjaneshöfn auk þess sem fyrri eigandi, Gentle Giants, hafi ekki greitt rafmagnskostnað og lestar- og bryggjugjöld. Þá hafi ítrekuðum beiðnum hafnarinnar um að málum varðandi bátinn yrði komið lag ekki verið sinnt.

Hvalaskoðunarfyrirtækið gefur sig út fyrir að stunda umhverfisvæna starfssemi og í umhverfisstefnu fyrirtækisins, sem birt er á heimasíðu þess er sérstaklega tekið fram að fyrirtækið starfi í samvinnu við viðkomandi yfirvöld varðandi eyðingu á úrgangi sem geti skaðað umhverfið, auk þess að tilkynna yfirvöldum án tafar ef að skip eða bátar í eigu þess séu að valda umhverfinu skaða.

Athugum blaðamanns á einkunnargjöf til Gentle Giants sýnir svo ekki verður um villst að Suðurnesjamenn hafa tekið áskoruninni, því einkunn fyrirtækisins á Facebook hefur hríðfallið eftir að áskorunin var sett fram.

Stefán Guðmundsson, forstjóri Gentle Giants, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu, þegar Suðunes.net leitaði eftir viðbrögðum, en sagði einhliða fréttaflutning af málinu vera til skoðunar hjá lögmanni fyrirtækisins.

Mynd: Skipasíða Emil Páls – En þar má finna fjölda mynda af Stormi SH sem teknar hafa verið undanfarin ár.