Nýjast á Local Suðurnes

Brunalykt og bilað mengunarmælitæki eftir gangsetningu kísilvers

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Kísilofn United Silicon var endurræstur í gær með samþykki Umhverfisstofnunar, en unnið hefur verið að endurbótum á ofninum undanfarnar vikur. Vonast er til að endurbæturnar skili því að óæskilegar lofttegundir eyðist frekar og skili sér síður út í andrúmsloftið.

Töluvert hefur þó borið að því að kvartað sé undan lykt sem berst frá verksmiðjunni á samfélagsmiðlunum og í fréttum Stöðvar tvö í kvöld kom fram að kvartanir hafi borist til Umhverfisstofnunar vegna þessa. Þá er mælitæki sem á að sýna mengunartölur við Mánagrund bilað í augnablikinu, en á vefsíðu Orkurannsókna Keilis, sem annast rannsóknir fyrir hönd United Silicon kemur fram að mengun sé mæld þó hún birtist ekki í rauntíma.

Forsvarsmenn verksmiðjunar vonast til að úrbæturnar skili lyktarlausri verksmiðju, en búast auk þess við því að það geti tekið allt að þremur vikum að ofninn nái fullum og stöðugum afköstum og á meðan það ferli sé í gangi megi búast við að lykt berist yfir bæinn standi vindar þannig.