Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjamenn veðsetja eignir sínar mest allra

Innri - Njarðvík

Mikil hækkun íbúðaverðs og jákvæð þróun á skuldum heimilanna í núverandi uppsveiflu gerir það að verkum að  veðsetningarhlutfall fasteigna hefur lækkað alls staðar og stendur það nú í 29% á landsvísu. Hlutfallið er hæst á Suðurnesjum, 39%.

Í síðustu uppsveiflu átti hið andstæða sér stað og veðsetningarhlutfall hækkaði á öllu landinu. Hæst náði veðsetning í 52% árið 2010. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um húsnæðismarkaðinn á landinu, þar kemur einnig fram að núverandi uppsveifla byggist á öllu heilbrigðari og áhættuminni grunni en sú síðasta og á það við um allt landið.

Athygli vekur að þrátt fyrir að dregið hafi úr skuldsetningu á öllum landsvæðum er skuldsetning nokkuð ólík þeirra á milli. Hún er til að mynda 14 prósentustigum hærri á Suðurnesjum, 39%, en á Norðurlandi vestra þar sem hlutfallið er 26%. Talsvert veðrými er engu að síður til staðar hjá heimilum landsins og virðist því svigrúm til aukinnar skuldsetningar vera til staðar, óháð staðsetningu á landinu, segir í skýrslunni.