Nýjast á Local Suðurnes

Ekkert gengið að bæta fimm ára gamalt heimsmet leikmanns Njarðvíkur

Engum hefur enn tekist að bæta heimsmet sem leikmaður Njarðvíkur í körfuknattleik, Jeb Ivey, setti á árunum 2010-2013, en þá skoraði kappinn að minnsta kosti eina þriggja stiga körfu í 177 leikjum í röð. Metið er skráð í heimsmetabók Guinnes og stendur enn.

Sem fyrr segir skoraði Ivey þriggja stiga körfu í 177 leikjum í röð á þessu þriggja ára tímabili með tveimur liðum, Nilan Bisons í Finnlandi og Aix Maurienne Savoie Basket í Frakklandi. Þriggja stigaskotnýting Ivey á þessu tímabili var ekki slæm en 40.7% skota kappans fyrir utan þriggjastiga línuna rötuðu ofan í körfuna eða 486 af 1193 tilraunum.

Til gamans má geta þess að Ivey hefur tekið þátt í öllum sjö leikjum Njarðvíkur á tímabilinu og skorað hið minnsta eina þriggja stiga körfu í þeim öllum.

Njarðvík tekur á móti Stjörnunni í Dominos-deildinni annað kvöld klukkan 20:30 og má fastlega reikna með því að nokkrar þriggja stiga tilraunir líti dagsins ljós hjá Bandaríkjamanninum.