Eldur kom upp í spilliefnageymslum Kölku – Húsnæðið í um 150 metra fjarlægð frá íbúabyggð

Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði Kölku við Fitjabraut í Njarðvík laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Húsnæðið var mannlaust þegar eldurinn kom upp.
Húsnæðið sem er staðsett í um 150 metra fjarlægð frá íbúabyggð er nýtt sem geymsla undir flugösku sem send er erlendis til förgunar á nokkura ára fresti. Flugaska er skilgreind sem spilliefni hér á landi, en um er að ræða fíngert ryk sem verður til í hreinsivirkjum sorpbrennslustöðvarinnar og getur verið afar hættulegt við innöndun.
Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja kom eldurinn upp í kalkgeymi. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins sem reyndist minni háttar.