Nýjast á Local Suðurnes

Miðar á OMAM seljast á allt að 100 þúsund krónur

Mikil eftirspurn eftir miðum og þátttaka sveitarinnar á tónlistarhátíðum leikur stórt hlutverk í hækkandi miðaverði á tónleika hljómsveitarinnar Of Monsters And Men sem er á tóleikaferð um Bandaríkin um þessar mundir.

Bandaríska tímaritið Forbes fjallar um hljómsveitna og segir í grein á vef tímaritsins að miðar á tóneika sveitarinnar seljist á allt að 100 þúsund krónur. Forbes tekur sem dæmi að sveitin hafi komið fram á tónleikum í Chicago í lok síðasta mánaðar  – Miðar í endursölu á þá tónleika hafi selst á 737 dollara eða tæpar 100 þúsund krónur.

Forbes segir að meðalverð miða í endursölu á tónleika sveitarinnar fyrir tveimur árum hafi verið tæpar 14 þúsund krónur – árið á undan hafi það „aðeins“ verið 9.400 krónur.

Forbes segir að stærstu tónleikar sveitarinnar verði í New York í lok næsta mánaðar. Miðar í endursölu á þá tónleika kosta að meðaltali um 18 þúsund krónur, en dýrustu miðarnir munu væntanega slaga í 100 þúsund krónurnar.