Veggjöld á samgönguáætlun fyrir áramót – Forseti bæjarstjórnar hrifinn af tillögunum

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur síðustu daga haft til skoðunar drög að breytingartillögum meirihluta nefndarinnar við samgönguáætlun um að taka upp veggjöld um allt land. Er þá átt við allar leiðir inn og út af höfuðborginni. Til stendur að ræða málið á Alþingi í vikunni, en samgönguáætlun þarf að samþykkja fyrir áramót.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir í samtali við RÚV að loksins sé kominn tími á stóra stökkið í umferðaröryggismálum, en hann hefur ekki heyrt af óánægju með þessa leið.
“Ég held að tækifærið sé núna og fyrir nefndina þá hef ég heyrt að allir gestir sem þangað komu voru hlynntir því að fara þessa leið og ég held það sé núna tækifæri fyrir þetta stóra stökk.” Segir ráðherra.
“…ég hef ekki heyrt neinn vera andsnúinn þessum hugmyndum. Nú er bara spurningin hvort menn hafi kjark og þor í að taka þetta stóra stökk í þágu umferðaröryggis og bættra framkvæmda.”
Þá sagði forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Jóhann Friðrik Friðriksson, á Facebook-síðu sinni að tillagan sé með því skásta sem hann hafi séð. Í umræðum við færslu Jóhanns Friðriks er þó nokkuð ljóst að fáir eru honum sammála um að veggjöld séu rétta leiðin til að flýta framkvæmdum.