Nýjast á Local Suðurnes

Líflegt á KEF þegar kvennalandsliðið hélt á EM

Líflegt var á Keflavíkurflugvelli í morgun þegar íslenska kvennalandsliðið í fótbolta var kvatt á leið sinni á Evrópumótið sem fram fer í Englandi nú í júlí. Stelpurnar okkar fengu höfðinglegar móttökur þegar þær mættu á völlinn, orðin „Áfram Ísland“ birtust á skjáum í innritunarsal, dreginn var fram rauður dregill og liðið kvatt með fánum og lófaklappi.  

Leið liðsins lá til Berlínar í morgun þar sem þær munu æfa stíft áður en þær ferðast til Englands þar sem fyrsti leikurinn fer fram þann 10. júlí. Þar er það lið Belgíu sem stelpurnar okkar mæta á Manchester City Academy Stadium. Liðið mætir svo aftur á sama leikvang fjórum dögum síðar þar sem stelpurnar mæta Ítalíu. Síðasti leikur þeirra í riðlakeppninni er svo gegn Frakklandi á velli Rotherham, New York Stadium, í Yorkshire.  

Tvö lið úr hverjum riðli á EM komast svo áfram í 8-liða úrslit og þangað stefna stelpurnar svo sannarlega en Evrópumeistararnir verða krýndir um verslunarmannahelgina.  

„Það var einstaklega dýrmætt að fá að kveðja hópinn áður en þær flugu af landi brott. Okkar markmið var að leyfa þeim að finna að við erum stolt af þeim hér á Keflavíkurflugvelli með skreytingum, rauðum dregli og lófaklappi og ég vona innilega að þær hafi fundið fyrir stuðningnum,“ segir Telma Sæmundsdóttir, verkefnastjóri markaðsmála hjá Isavia.   

Eins tóku ýmsir rekstraraðilar á vellinum þátt í fjörinu með því að bjóða upp á vörur merktar liðinu. Þar á meðal bjóða Joe and the Juice drykkinn DÓTTIR til sölu á meðan keppninni stendur og hinn nýopnaði veitingastaður Maika‘i verður með nýja skál á matseðlinum til heiðurs liðinu.  

„Bæði farþegar og starfsfólk hérna á vellinum tóku vel á móti stelpunum okkar í morgun og það var mikil hátíðarstemning. Við munum að sjálfsögðu fylgjast náið með mótinu sem fer fram í júlí og það er gaman að rekstraraðilar vilji vera með okkur í þessu og bjóði upp á ýmsar vörur til sölu út mánuðinn til heiðurs liðinu,“ segir Þórunn Marinósdóttir, forstöðumaður viðskiptatekna og sölu hjá Isavia, og bætir við „Áfram Ísland.“