Nýjast á Local Suðurnes

Garður stendur vel fjárhagslega

Heildar skuldir og skuldbindingar Sveitarfélagsins Garðs eru í árslok 2016 áætlaðar alls 484 milljónir.  Þar af eru skuldir við lánastofnanir aðeins 62,9 milljónir.  Hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af heildartekjum, þ.e. skuldahlutfall er 40,8%.  Samkvæmt fjármálareglum Sveitarstjórnarlaga má þetta skuldahlutfall að hámarki vera 150%. Þetta kemur fram í Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2016-2019 sem samþykkt var í bæjarstjórn miðvikudaginn 2. desember síðastliðinn.

Í sjóðstreymi áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 124,2 milljónir, eða 10,5% af tekjum.  Afborganir langtímalána verða 1,9 milljónir. Handbært fé í árslok 2016 er áætlað 283 milljónir.

Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir fjárfestingum að fjárhæð 65,2 milljónum króna.

Frístundastyrkir barna eru hækkaðir úr kr. 20.000 á barn árið 2015 í kr. 30.000 á barn árið 2016.  Í áætluninni felst einnig 2,0 milljóna fjárveiting til endurnýjunar tölvubúnaðar í Gerðaskóla.  Fjárheimild til viðhalds eigna og gatna er 31 milljón króna.t.

Gjaldskrá er hækkuð í takt við breytingar á neysluvísitölu og launavísitölu síðustu 12 mánuða.  Gjaldskrá fyrir þjónustu sem er að mestu borin uppi af launakostnaði hækkar um 3,9%, en að öðru leyti hækkar gjaldskrá um 2%.

Á heimasíðu sveitarfélagsins má hér sjá fjárhagsáætlun í heild sinni, einnig er hér ítarleg greinargerð bæjarstjóra um einstaka liði, forsendur og vinnslu fjárhagsáætlunarinnar.