Nýjast á Local Suðurnes

Óska eftir upplýsingum um kostnað við ráðgjafa

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa óskað eftir ýmsum upplýsingum varðandi vinnu og kostnað við umhverfisstefnu sveitarfélagsins, en hún hefur verið í vinnslu í tæpt ár.

Ráðgjafar frá Circular Solutions hafa verið tíðir gestir á fundum vegna þessa og virðist sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins finnst full vel í lagt.

Bókun frá síðasta fundi bæjarstjórnar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Umhverfisstefna Reykjanesbæjar hefur verið til umræðu hjá umhverfis- og skipulagsráði síðan í febrúar og í framtíðarnefnd síðan í maí 2020. Umhverfisstefnan var til umræðu í framtíðarnefnd á 9.,10.,11.,13., 14. og 15. fundi framtíðarnefndar þar sem skráð var í fundargerð hver næstu skref eiga að vera.
Umhverfis- og skipulagsráð hefur unnið að umhverfisstefnunni frá því í febrúar og hefur hún verið tekin fyrir á fjórum fundum þess ráðs auk sameiginlegs fundar með framtíðarnefnd. Ráðgjafar frá Circular Solutions hafa mætt nokkrum sinnum á fundi nefndanna.


Vegna ofangreinds þá spyrjum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og óskum eftir svörum á næsta bæjarstjórnarfundi:


1. Hver ber ábyrgð á gerð umhverfisstefnu Reykjanesbæjar?
2. Hvert er hlutverk ráðgjafa í þessu ferli?
3. Hver er heildarkostnaður sem greiddur var til ráðgjafa vegna umhverfisstefnu árið 2020 og hver er áætlaður kostnaður 2021?
4. Var gerður samningur við ráðgjafa vegna vinnu við umhverfisstefnu?
5. Hvenær er áætlað að vinnu við umhverfisstefnu ljúki?“