Nýjast á Local Suðurnes

Stórsigur hjá Njarðvík í bikarnum – Stefna á fyrsta grasleikinn á laugardag

Njarðvíkingar fara vel af stað í Borgunarbikarnum í knattspyrnu, en liðið lagði Stál-úlf 1 – 6 í fyrstu umferð keppninnar í gærkvöldi.

Theodór Guðni Halldórsson tryggði Njarðvíkingum góða stöðu í leikhléi, en hann skoraði þrennu í fyrri hálfleik. Sigurður Þór Hallgrímsson bætti svo við þremur mörkum í síðari hálfleik, þar af tveimur í uppbótartíma, en hann kom inná sem varamaður á 49. mínútu.

Njarðvíkingar leika á heimavelli gegn ÍR-ingum í síðari leik undankeppninnar á laugardag, og kemst liðið sem sigrar þann leik áfram í 32-liða úrslit. Njarðvíkingar stefna á að leika þann leik úti, á Njarðtaksvellinum, og yrði þá um fyrsta grasleik sumarsins að ræða.

Njarðvík og ÍR hafa tekist nokkrum sinnum á í deildarkeppninni undanfarin ár og hafa leikir liðanna ávallt verið harðir, hraðir og skemmtilegir á að horfa og því um að gera að skella sér á völlinn og hvetja Njarðvíkinga áfram á Njarðtaksvellinum á laugardag.