Nýjast á Local Suðurnes

Dramatík þegar Grindavík vann Þór á Akureyri

Það er óhætt að segja að það hafi verið dramatík í leik Grindavíkur og Þórs á Akureyri í gær þegar þeir gulklæddu lögðu Þórsara að velli í fyrstu deildinni í knattspyrnu en Maciej Majewski markvörður Grindvíkinga gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu þórsara á 95. mínútu í stöðunni 2-3.

Það var frábær fyrri hálfleikur Grindvíkinga sem skóp þennan sigur, þeir voru 1-3 yfir í hálfleik við mikinn fögnuð fjölda Grindvíkinga sem voru á vellinum en nú fer fram pollamótið í yngri flokkunum og margir Suðurnesjamenn á Akureyri sem létu sjá sig á leiknum.

Þórsarar komu svo mun beittari til leiks í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn í 2-3 um miðjan síðari hálfleik. Þeir fengu svo gullið tækifæri til að jafna leikinn í uppbótartíma þegar vítaspyrna var dæmd á Grindvíkinga en besti maður vallarins, Maciej Majewski markvörður Grindvíkinga varði með því að grípa boltann.

Það voru því Grindvíkingar sem nældu í stigin 3 sem í boði voru og lyftu sér upp í 6. sæti deildarinnar.