Nýjast á Local Suðurnes

Gentle Giants skuldlausir við Reykjaneshöfn – “Óheiðarleiki af verstu sort”

Stormur SH 333 við Skipasmíðastöð Njarðvíkur rétt áður en hann var rifinn - Mynd: Emil Páll

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík var skuldlaust við Reykjaneshöfn um áramót. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Reykjanesbæ, sem sendur var á ritstjórn Suðurnes.net, með leyfi fyrirtækisins. Einkunnargjöf fyrirtækisins á helstu ferðavefsíðum hrundi í kjölfar áskorunnar um að gefa fyrirtækinu lélega einkunn eftir að fréttir birtust af miklum kostnaði sem lenti á Reykjaneshöfn vegna förgun á báti, sem var í eigu fyrirtækisins.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins telur að því vegið og sagði í tilkynningu í gær að fyrirtækið hafi greitt um átta milljónir króna til Reykjaneshafnar undanfarin ár í hafnargjöld vegna bátsins, Storms SH 333, sem legið hefur við bryggju í Njarðvík í um 9 ár, þar af undanfarna mánuði á botni hafnarinnar, eftir að hafa sokkið.

 “Við höfum staðið við allar okkar skuldbindingar gagnvart báðum þessum höfnum[innsk. ritstj.: Báturinn lá einnig við bryggju í Kópavogi]; sem og gagnvart þeim aðilum sem tóku td. þátt í annarri vinnu við bátinn til þess að halda honum á hverjum stað og lögðum mikið á okkur til þess.” Sagði Stefán Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins, í tilkynningu. “Við höfum td. greitt tæpar 8 milljónir til Reykjaneshafnar í hafnargjöld á þessum árum sem hann hefur verið þar og til annarra það sem þeim ber.” Sagði einnig í tilkynningunni.

Reykjanesbær situr uppi með förgunarkostnaðinn – “Löglegt en algjörlega siðlaust”

Að sögn stjórnarformanns Reykjaneshafnar, Davíðs Páls Viðarssonar, var hætta talin stafa af bátnum þar sem hann lá í Njarðvíkurhöfn og hafði fyrirtækinu ítrekað verið bent á að koma þyrfti bátnum í horf, draga hann í burtu, eða að farga honum.

Fyrirtækið hunsaði þessar beinir Reykjaneshafnar og seldi bátinn að lokum fyrir eina krónu til aðila á Þingeyri. Sá aðili var ekki í aðstöðu til að aðhafast neitt varðandi bátinn þegar á reyndi.

“Það má vel vera að þeir hafi greitt af honum hafnargjöld og séu skuldlausir við höfnina að því leiti,” segir Davíð Páll. “Við lítum hins vegar svo á að þeir skuldi okkur urðunarkostnaðinn á þessum bát, þar sem þessi gjörningur, salan, virðist vera málamyndagjörningur, til að losna við kostnaðinn af þessum bát. Líklega löglegt, en algjörlega siðlaust. Óheiðarleiki af verstu sort.” Segir Davíð Páll.

Kostnaðurinn við urðun á bátnum nam nokkrum milljónum króna og lendir sá kostnaður að öllu leiti á Reykjaneshöfn.

Einkunnargjöf hrundi í kjölfar áskorunar

Blaðamaðurinn Atli Már Gylfason hvatti fólk til að sniðganga fyrirtækið og gefa því lægstu mögulegu einkunn í einkunnargjafa- og umsagnarkerfum stærstu ferðavefjanna og samfélagsmiðlanna í kjölfar málsins. Atli Már, líkt og forsvarsmenn Reykjaneshafnar er ekki sáttur við skýringar fyrirtækisins og heldur áfram að benda fólki á að gefa fyrirtækinu slæma einkunn á fyrrnefndum miðlum.

“Þeir eru byrjaðir að henda út “reviews” – við skulum ekki gefast upp og höldum áfram…” Segir Atli Már á Facebook-síðu sinni í morgun, en þar hafa farið fram líflegar umræður um málið, meðal annars með þátttöku forstjóra Gentle Giants.