Kolrassa Krókríðandi stefnir á endurútgáfu og tónleika – Þú getur hjálpað!
Hljómsveitin Kolrassa Krókríðandi fagnar í ár 25 ára afmæli sínu og af því tilefni stefnir hún að endurútgáfu sinnar fyrstu plötu, Drápu, á Vínyl og geisladisk, en platan hefur verið ófáanleg í áratugi. Hljómsveitin hefur hafið söfnun á Karolinafund til að standa straum af kostnaðinum við plötuútgáfunna, en auk þess mun hljómsveitin flytja plötuna skipuð upprunalegum meðlimum á tónleikum þann 25. nóvember næstkomandi.
Hljómsveitin sló eftirminnilega í gegn árið 1992 þegar hún sigraði Músíktilraunir með glæsibrag, en hljómsveitin var skipuð fjórum ungum stúlkum úr Keflavík og var talin ein af mest spennandi og framsæknustu hljómsveitum Íslands.
Með útgáfu sinnar fyrstu plötu, Drápu, stimplaði Kolrassa sig rækilega inn í tónlistarflóru landans sem einstök og frumleg hljómsveit. Lög eins og Móðir mín í kví kví, Vögguvísa, og Kona vöktu mikla og jákvæða athygli bæði aðdáenda og gagnrýnenda.
Á þessu ári fagnar Kolrassa Krókríðandi 25 ára afmæli sínu og stefnir af því tilefni að endurútgáfu fyrstu plötu sinnar, Drápu. Drápa hefur verið ófáanleg allt frá því stuttu eftir að hún kom út. Samhliða tónleikum og plötuútgáfu er unnið að því að setja upp vefsvæði þar sem tónlistarmyndbönd, tónleikaupptökur,ljósmyndir og fleira verða sett inn frá litríkum og uppátækjasömum starfsárum Kolrössu.
Kolrassa Krókríðandi, skipuð upprunalegum meðlimum stefnir að því að koma saman og halda þrusu tónleika og flytja alla plötuna, einu sinni, á Húrra þann 25. nóvember 2017. Ætlunin er að Drápa verði þá á sama tíma tilbúin til endurútgáfu en þá verða komin 25 ár frá því hún kom út fyrst. Stefnt er að því að endurhljóðjafna plötuna og jafnvel að bæta við áður óútgefnu efni frá sama tíma.
Hér getur þú lagt þitt af mörkum og tryggt tónleikahaldið og útgáfu plötunnar.