Nýjast á Local Suðurnes

Óánægja með Sambíóin – “Klósettin lykta eins og kamar á Hróarskeldu á þriðja degi”

Fjöldi fólks hefur skrifað athugasemdir við innlegg sem birt var í lokuðum hóp íbúa Reykjanesbæjar á Facebook, þar sem ástandi eina bíóhúsins í Reykjanesbæ er lýst. Ljóst er að íbúar telja ástand hússins vera óboðlegt, en í umræðum kemur fram að mörg sæti séu rifin, eða að sessur hreinlega vanti.

Húsið var byggt árið 1941 og er búið 2 sölum. Salur 1 var endurreistur árið 1998 og salur 2 var byggður 2001.

Þá fær salernisaðtaðan í bíóhúsinu, sem rekið er af Sambíóunum, ekki háa einkunn hjá þeim sem tjá sig í þræðinum.

“Klósettin þarna lykta eins og kamar á Hróarskeldu á þriðja degi í þokkabót.” Segir einn af þeim sem tjá sig um málið.

Annar sem tjáir sig um málið segir ansi slæmt að ekki skuli vera hugsað betur um húsnæðið, enda er um að ræða fyrsta kvikmyndahúsið sem fyrirtækið opnaði.

“Mér finnst ansi slakt af eigendum Sam bíóanna að hugsa ekki betur um þetta kvikmyndahús sitt. Þetta er nú einu sinni það hús sem lagði grunninn að því veldi sem það er í dag.”

Þá segir annar aðili að aðstaðan sé ekki boðleg miðað við miðaverð í dag.

“Alls ekki fólki bjóðandi sem borgar næstum því tvö þúsund krónur fyrir sætið en heildarkostnaður hvers og eins með sjoppunni (sem er sú dýrasta á landinu) er á bilinu 3-5 þúsund krónur.”