Nýjast á Local Suðurnes

Lítil mengun á Flugvöllum – Svæðið klárt til byggingarframkvæmda

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Niðurstöður á sýnatöku í jarðvegi við Flugvelli sýndu að ekki var um verulega mengaðan jarðveg að ræða og engin þrávirk efni fundust. Samanburður var gerður á öðrum jarðvegi innan og utan bæjarmarka. Áfram verður fylgst með jarðveginum á svæðinu.

Síðastliðið sumar hófst vinna við gerð byggingalóða og gatna á Flugvöllum í Reykjanesbæ, hverfi ofan Iðavallar sem ætlað er verslun og þjónustu. Þegar framkvæmdir hófust kom í ljós umtalsvert magn af úrgangi á svæðinu. Stærsti hluti hans tengdist sjósókn og byggingaframkvæmdum frá því Eyjahverfið var að byggjast upp. Á einum afmörkuðum stað fannst tjara í litlu mæli. Jarðvegssýni voru tekin á allmörgum stöðum en samið var við verkfræðistofuna VERKÍS til að hafa umsjón með mælingunum. Starfsmenn þar hafa víðtæka reynslu af mengunarmælingum, meðal annars á fyrrverandi varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Að auki hófst strax samstarf við Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja (HES) sem hefur eftirlit með mengunarsvæðum á Suðurnesjum.

Auk jarðvegssýna á Flugvöllum voru tekin bakgrunnssýni til að meta náttúrulegan styrk málma í jarðveginum á öðrum svæðum innan bæjarfélagsins og á nokkrum öðrum stöðum til samanburðar, Miðnesheiðinni og Vatnsleysuströnd. Bakgrunnsgildi endurspegla náttúrulega efnasamsetningu jarðvegsins en hún er háð móðurefninu sem jarðvegurinn verður til úr sem og þeim aðstæðum sem ríkja í umhverfi jarðvegsins. Bakgrunnsýni skulu vera óraskaður jarðvegur þar sem áhrifa mengunar gætir ekki. Niðurstöður sýndu að ekki var um verulega mengaðan jarðveg að ræða á svæðinu og sem mestu skiptir, engin þrávirk efni fundust við mælingar.

Eftir að niðurstöður rannsókna lágu fyrir og Skipulagsstofnun staðfesti að flutningur á uppúrtekt væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum gaf HES heimild til flutnings af efninu. Strax var hafist handa við flutning á hreinsuðum jarðvegi af svæðinu á Ásenda en þar hefur verið landmótunarsvæði í mörg ár. Allt járn sem kom við uppgröft var flutt í gámum af svæðinu og annað rusl sem flokkað hefur verið úr jarðvegi var flutt í Kölku til förgunar. Tjara sem fannst verður flutt í Álfsnes til förgunar.

Áfram verður fylgst með þegar jarðvegur verður numinn af svæðinu og þegar lóðarframkvæmdir hefjast mun verða stíft eftirlit með framkvæmdum. Vitað er hvar tjara gæti leynst og verður það svæði sérstaklega vaktað þegar framkvæmdir hefjast á því svæði. Lokaúttekt hefur farið fram á Flugvöllum og er nú svæðið klárt til byggingarframkvæmda.