Nýjast á Local Suðurnes

Markalaust hjá Keflavík og KA – “Lögðum okkur fram og sköpuðum færi”

Leikur Keflvíkur og KA á Nettóvellinum í kvöld var þýðingamikill fyrir bæði lið sem berjast um sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Liðin skildu jöfn í markalausum leik, sem var frekar bragðdaufur miðað við mikilvægið. Úrslitin gera Keflvíkingum erfitt fyrir í toppbaráttunni, en sjö stig skilja liðin sem léku í kvöld að í öðru og þriðja sæti deildarinnar. Um 400 áhorfendur mættu á leikinn, sem er með því mesta sem sést hefur í stúkunni á Nettóvellinum á tímabilinu.

Það markverðasta í leiknum gerðist eftir aðeins um 20 sekúndur, þegar Keflvíkingar vildu að leikmaður KA fengi rautt spjald fyrir gróft brot. Dómarinn, sem var sennilega besti maður vallarins í kvöld, veitti þó aðeins gult og voru heimamenn frekar ósáttir við þá ákvörðun.

Keflvíkingar sóttu af miklum krafti á lokamínútunum, enda sigur nauðsynlegur, en sterk vörn KA-mann stóð sóknarlotur Keflvíkinga af sér.

Þorvaldur Örlygsson þjálfari Keflavíkur taldi sitt lið hafa verið betra í dag og hafa skapað færi.

„Við vildum fá þrjú stig og gerðum allt til þess að gera það. Lögðum okkur fram, sköpuðum færi og fengum færi en kannski ekki nógu mörg opin færi,” sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Keflavíkur við sjónvarp Fótbolta.net eftir leikinn.