Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík fyrsta fimleikafélagið sem býður upp á Power Tumbling – Myndband!

Föstudaginn 19.ágúst kl 16.30 – 18.30 mun Fimleikadeild Keflavíkur standa fyrir kynningu á Power tumbling, en Keflavík verður fyrsta íslenska fimleikafélagið til að bjóða upp á þessa tegun fimleika fyrir byrjendur og lengra komna. Daniel Bay Jensen, áður danskur landsliðsþjálfari og alþjóðlegur dómari FIG í Power tumbling mun sjá um þjálfunina.

Power tumbling er hluti af FIG (Alþjóðlega fimleikasambandinu) og hefur oft verið kallað formula 1 fimleikanna, og ekki að ástæðulausu. Þessi fimleikagrein er framkvæmd af miklum hraða á 25 metra braut og inniheldur hún mögnuð stökk á miklum hraða sem nær hámarki í lokastökkinum sem getur innihaldið mikinn eriðfleika. Það má segja að power tumbling sé oft á tíðum eins og flugeldasýning með skemmtanagildi og spennu sem tilheyrir rússíbanaferð, segir í tilkynningu frá Fimleikadeild Keflavíkur.

Kynningin er fyrir bæði iðkendur og foreldra. Foreldrar eru hvattir til þess að koma með og kynna sér hvað power tumbling er. Byrjað verður í fyrirlestrarsalnum á stuttri kynningu og síðan verður farið í fimleikasalinn. Daniel Bay Jensen þjálfari hópsins mun sjá um kynninguna.

Fimleikadeild Keflavíkur hefur verið á uppleið undanfarin misseri, en nýlega eignaðist deildin landsliðkonu í fimleikum, þegar Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman var valin í lokahóp landsliðsins í hópfimleikum. Þá hefur deildin ráðið til sín öfluga þjálfara að undanförnu, þar á meðal Power Tumble þjálfarann Daniel Bay Jensen.