Nýjast á Local Suðurnes

Vantar aðstöðu fyrir Skotdeild Keflavíkur – Þurfa að æfa skotfimi í Kópavogi

Mikill uppgangur hefur verið í starfsemi Skotdeildar Keflavíkur undanfarin ár og telja félagar í deildinni nú á sjöunda hundraðið, fyrir um 10 árum síðan voru skráðir félagar um 70. Stafsemi deildarinnar er nær eingöngu fjármögnuð af félagsmönnum sjálfum og mikill hluti starfsins fer fram í sjálboðavinnu. Þetta kemur fram í pistli formanns deildarinnar, Bjarna Sigurðssonar, í jólablaði íþrótta- og ungmennafélags Keflavíkur.

Félagið sem stofnað var árið 1982 hefur á undanförnum árum byggt upp aðstöðu á Hafnarheiðinni undir starfsemina, þar hefur til að mynda verið komið upp 120 fermetra riffilaðstöðu.

“Við fjárfestum í öllu sem viðkemur viðhaldi, breytingum, endurnýjun á búnaði o. s. frv. sjálfir,” segir í pistli Bjarna. Þar segir einnig að félagsmenn sjá um förgun á sorpi og upphitun á aðstöðunni sjálfir og hafi litla hjálp fengið.

Þá kemur fram í pistlinum að aðstaða fyrir innigreinar hafi sprengt af sér það húsnæði sem deildin hefur til umráða:

“Okkur langar að geta boðið uppá fyrirmyndar aðstöðu í unglingastarfinu og í innigreinum fyrir deildina. Í dag þurfum við að sækja til Kópavogs til að æfa aðrar innigreinar en 10 metra loftgreinar.” Segir í pistli Bjarna.

Ekkert félagsgjald er greitt fyrir unglinga sem áhuga hafa á að æfa skotfimi, deildin útvegar auk þess allt sem til þarf s.s. skot og skífur.

Formaðurinn segist finna fyrir ánægju á meðal unglinga og foreldra með þetta framtak deildarinnar og sér fyrir sér að þetta eigi eftir að leiða til góðs:

“Okkar hugsjón er að skapa íþróttamenn, veita þeim unglingum sem ekki finna sig í hópíþróttum athygli og aðhlynningu. Og sjáum við fyrir okkur að þetta verði snjóbolti sem á bara eftir að leiða til góðs.”

Keppendurnir frá Reykjanesbæ stóðu sig vel í Kópavogi

Keppendurnir frá Reykjanesbæ stóðu sig vel í Kópavogi í desember

Keppendum á vegum Skotdeildarinnar hefur gengið vel undanfarin misseri, til að mynda gekk mjög vel á Opna-Kópavogsmótinu í loftgreinum sem fram fór í desember. Sigríður Eygdís Gísladóttir gerði sér lítið fyrir og setti Íslandsmet í loftriffli, unglingaflokki kvenna og Theodór Kjartansson lenti í öðru sæti í loftriffli karla.