Nýjast á Local Suðurnes

Safnað fyrir skógjöfum fjórða árið í röð – Um 100 börn njóta góðs af söfnuninni

Söfnunin hefur gengið afar vel undanfarin ár

Söfnunin Gleðjum lítil hjörtu um jólin mun fara fram fyrir jólin í ár, en þetta er fjórða árið í röð sem Styrmir Barkarsson, sem nú býr í Svíþjóð, stendur fyrir söfnuninni með dyggri aðstoð fjölda fólks, meðal annars fyrrum samstarfsfólks úr Myllubakkaskóla. Söfnunin gengur sem fyrr út á það að safna gjöfum í skóinn fyrir börn skjólstæðinga Velferðarsjóðs Suðurnesja.

Á vefsíðu Styrmis kemur fram að fyrsta árið hafi safnast nær hálf milljón króna, sem dugði ekki aðeins fyrir hundruðum skógjafa, heldur var mögulegt að afhenda jólagjafir, jólanesti, jólaföndur og fleira fyrir öll börn í um 100 fjölskyldum sem leituðu til Velferðarsjóðs Suðurnesja auk jólagjafa fyrir öll börn sem dvöldu á vinajólum Hjálpræðishersins. Árin 2014 og 2015 safnaðist annað eins.

Nú er árið 2016 og þörfin er enn til staðar, því meira en sex þúsund börn á Íslandi búa við efnislegan skort. Ég ætla ekki að standa þögull hjá og því ætla ég í fjórða skiptið að hefja söfnun svo sem flest börn fái að eiga þessar ljúfu litlu stundir sem ekkert barn ætti að fara á mis við. Segir Styrmir meðal annars á bloggi sínu.

Allir geta lagt verkefninu lið og er söfnunarreikningurinn sá sami og fyrri ár: 0542 – 14 – 403565 og kennitalan er 281080-4909.