Nýjast á Local Suðurnes

Íslenska U17 ára landsliðið leikur til úrslita á NM – Tveir Suðurnesjamenn í liðinu

Íslenska landsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum undir 17 ára, leikur til úrslita á opna Norðurlandamótinu sem fram fer í Finnlandi. Strákarnir unnu góðan 2-1 sigur á Svíþjóð í gær og það er því ljóst að Ísland leikur til úrslita í mótinu á þriðjudaginn.

Ísland komst yfir í leiknum með marki Ívars Reynis en Svíar jöfnuðu metin. Ívar var aftur á ferð í seinni hálfleik er hann kom Íslandi í 2-1 sem urðu úrslit leiksins. Góður sigur á sterku liði Svía og sæti í úrslitaleiknum tryggt en þar mætir íslenska liðið Dönum.

Tveir Suðurnesjamenn leika með liðinu, Keflvíkingurinn Ísak Óli Ólafsson var í byrjunarliðinu gegn Svíþjóð en Njarðvíkingurinn Brynjar Atli Bragason stóð vaktina á bekknum að þessu sinni.