Nýjast á Local Suðurnes

Yfir 100 börn á Suðurnesjum búa við fátækt – Enn hægt að leggja söfnun til jólagjafakaupa lið

Söfnunin hefur gengið afar vel undanfarin ár

Um 70 fjölskyldur, skjólstæðingar Velferðarsjóðs Suðurnesja munu fá gjafir undir jólatréð, að ógleymdum skógjöfum frá jólasveinum í gegnum söfnun sem Styrmir Barkarson stendur fyrir ásamt þeim þeim Freydísi Kneif, Írisi Dröfn og Gunnheiði, kennurum í Myllubakkaskóla. Það eru yfir 100 börn á Suðurnesjum sem búa við fátækt og enn er hægt að leggja söfnuninni lið.

“Það eru yfir 100 börn á Suðurnejsum sem búa við fátækt. Á landinu öllu eru þau á annað þúsund. Það er ekki í lagi. Ég get kannski ekki lagað það en ég get gert hvað ég get til að leyfa krökkunum að njóta jólanna.” Sagði Styrmir í samtali við Local Suðurnes þegar söfnunin var nýhafin í nóvember síðastliðnum.

Þetta er þriðja árið í röð sem Styrmir stendur fyrir söfnun af þessu tagi og segir hann í samtali við Local Suðurnes að svipuð upphæð hafi safnast í ár og undanfarin ár, eða um hálf milljón króna. Hann vill þó benda á að söfnuninni sé ekki lokið:

“Erum enn að safna. Náðum að safna svipuðu og í fyrra en takmarkið er samt alltaf að gera betur. Það stefnir þó í að við náum að safna fyrir gjöfum handa öllum. Allar aukakrónur verða notaðar í páskaegg og færast yfir í næsta desember.” Sagði Styrmir.

Líkt og í fyrra fær Vinasetrið gjafir fyrir börnin til að taka með heim fyrir jólin og Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ fær gjafir fyrir börnin sem dvelja hjá þeim á árlegum Vinajólum.

Hægt er að fylgjast með framgangi söfnunarinnar á bloggsíðu Styrmis en þar eru meðal annars birt yfirlit yfir framlög og útgjöld sem hann uppfærir reglulega.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á söfnunarreikning með númerinu 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909.

jolagjafir styrmir1

Flottar gjafir fyrir flotta krakka

 

jolagjafir styrmir2

Söfnunin hefur gengið vel í ár eins og undanfarin ár