Nýjast á Local Suðurnes

U18 landsliðið í versta veðri sem gengið hefur yfir Makedóníu – „Ljós­in í höll­inni farin að blikka.“

Ís­lenska U18 karla­landsliðið í körfuknatt­leik leikur á Evrópumótinu sem fram fer í höfuðborg Makedóníu, Skopje, en mikl­ar rign­ing­ar og flóð gengu yfir borg­ina og nær­liggj­andi bæi á laug­ar­dag. Úrkom­an var um 93 mm og vatns­hæðin fór mest í 1,5 metra. Heim­ili fólks urðu afar illa úti vegna flóðanna og ligg­ur raf­magn niðri í borginni.

Fjórir Suðurnesjamenn leika með liðinu, Adam Eiður Ásgeirsson, Jón Arnór Sverrisson og Snjólfur Marel Stefánsson úr Njarðvík, auk Grindvíkingsins Ingva Þórs Guðmundssonar. Njarðvíkingurinn Einar Árni Jóhannsson er þjálfari liðsins og sagði hann gærdaginn hafa verið stórfurðulegan.

„Gær­dag­ur­inn var stórfurðuleg­ur því það var fín­asta veður þegar við fór­um af hót­el­inu,“ seg­ir Ein­ar á Facebook, en að versti hluti veðurs­ins hafi gengið yfir á meðan þeir spiluðu leik í íþrótta­höll­inni. „Þakið var farið að leka all­hressi­lega og ljós­in í höll­inni að blikka.“

„Mönn­um var pínu brugðið þegar þeir fengu frétt­ir af því í morg­un að það væru alla­vega um 15 látn­ir á þeim tíma og fleiri slasaðir,“ seg­ir Ein­ar Árni við mbl.is.

Liðið lék lokaleik sinn á mótinu í gær, gegn Portúgal, leikurinn fór 64-60 fyrir Íslandi, sem endaði mótið í 13. sæti. Suðurnesjamennirnir stóðu sig með prýði á mótinu, Adam Ásgeirsson skoraði 9,8 stig að meðaltali í leik og Snjólfur Marel 8,4.