Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík Powerade-meistari í unglingaflokki og Grindavík í 9. flokki stúlkna

Keflvíkingar eru bikarmeistarar í unglingaflokki kvenna eftir stórsigur á Snæfelli, 105-42. Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir Keflvíkinga í leiknum algjörir og skildu 29 stig liðin að í leikhléi, 55-26 fyrir Keflavík.

Sandra Lind var með stigahæst Keflvíkinga með 21 stig, hún tók auk þess 8 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 20 stig.

Grindvíkingar og Njarðvíkingar áttust við í 9. flokki stúlkna og þar var töluvert meiri spenna á ferðinni, Grindvíkingar fögnuðu bikarmeistaratitlinum þó að lokum með því að leggja þær grænklæddu að velli með 5 stiga mun, 46-41.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og þó Grindavíkurstúlkur hafi náð 10 stiga forystu í upphafi síðari hálfleiks þá börðust Njarðvíkingar eins og ljón, það dugði þó ekki til og þær gulklæddu höfðu sigur.

Ólöf Rún Óladóttir leikmaður Grindavíkur átti stórkostlegan leik í kvöld, skoraði 23 stig og tók 9 fráköst.